Textílfélagið

Rætur þráðlistar liggja djúpt í íslenskri menningu. Öld fram af öld hafa Íslendingar unnið með þráð og voð. Það var neyðin sem kenndi naktri konu að spinna fyrr á öldum en í dag er það forvitnin, þekkingarþorstinn og sköpunarþörfin sem hvetur okkur áfram.

Í nóvember árið 1974 var Textílfélagið stofnað af nemendum og kennurum textíldeildar Myndlista- og handíðaskólans ásamt starfandi textíllistamönnum. Árið 1970 hafði textíldeild verið stofnuð við Myndlista- og handíðaskóla Íslands af þáverandi skólastjóra Herði Ágústssyni.

Félagið er eitt af aðildarfélögum SÍM, aðili að Hönnunarmiðstöð Íslands og aðili að NTA (www.nordictextileart.net)  

Sama ár og félagið var stofnað varð Norræni textíltríennalinn að veruleika. Textílfélagið var aðili að þessu framtaki frá upphafi og tók virkan þátt í að móta og koma þessari stóru samnorrænu sýningu á fót síðasta sýningin var 1995.

Textílfélagið hefur haldið stórar samsýningar á fimm ára fresti og einnig hafa minni hópar innan félagsins staðið saman að sýningum. Félagar hafa farið ýmsar leiðir í listsköpun sinni, ofið, prjónað, saumað, þrykkt, þæft, unnið pappír, hannað fatnað og annan textíl.

Textílfélagið stóð fyrir viðamikilli sýningu 2004, Northern Fibre V sem haldin var á Kjarvalsstöðum. Í Gerðarsafni í janúar 2009 var fjölbreytt og yfirgripsmikil sýning, Þverskuður, sem félaginu bauðst að setja upp. Sýningin var þrískipt, verk heiðurfélaga Textílfélagsins, verk nokkurra brautryðjenda í íslenskri textíllist og samsýning valinna verka félagskvenna úr samtímanum.. Árið 2011 var Textílfélagið með þrjár sýningar samtímis á Listasumri á Akureyri. Í Ketilhúsinu, Mjólkurbúðinni og í Hofi.

Árið 2005 fékk Hrafnhildur Sigurðardóttir Norrænu textílverðlaunin og er það í fyrsta skipti sem íslenskur textíllistamaður hlýtur norræna viðurkenningu, árið eftir var Sjónlistarorðunni úthlutað í fyrsta skipti í myndlist sem Hildur Bjarnadóttir hlaut og var það mikill heiður fyrir textílmyndlist í landinu. Hrafnhildur Arnardóttir hlaut norrænu textílverðlaunin árið 2011. Þá var Hólmfríður Árnadóttir, heiðursfélagi í Textílfélaginu, sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2009..

Í maí 2009 opnaði félagið textílverkstæði á Korpúlfsstöðum þar geta bæði félagmenn og aðrir leigt sér tímabundana aðstöðu. Sjá nánar á facebook (Textílverkstæðið Korpa).

Félagsmenn eru nú 75 og heimasíða félagsins er www.tex.is

Stjórn Textílsfélagsins

Kristveig Halldórsdóttir – formaður
Helga Pálína Byrnjólfsdóttir – gjaldkeri

Helga R. Mogensen – ritari
Ýr Jóhannsdóttir og Bethina Elvedam Nielsen – Meðstjórnendur
Lilý Erla Adamsdóttir og Ásdís Birgisdóttir – Varamenn í stjórn

Bethina Elvedam Nielsen og Lilý Erla Adamsdóttir – NTA tengiliðir

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com