Leirlistafélagið
Upphaf Íslenskrar leirlistar er rakið aftur til ársins 1930. Saga greinarinnar er því mjög stutt hér á landi miðað við nágrannalöndin. Árið 1969 var byrjað að kenna leirlist sem listgrein við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og í mars 1981 var félagið stofnað. Upphaflega bar það nafnið félag íslenskra leirlistamanna en heitir í dag Leirlistafélag Íslands. Félagið er ætlað öllum menntuðum leirlistamönnum hvort sem þeir vinna að nytjalist, hönnun eða frjálsri myndlist. Takmarkið var og er að efla veg og virðingu greinarinnar á Íslandi, standa fyrir sýningum bæði heima og erlendis ásamt því að stofna til sambanda út í heim svo íslenskt leirlistafólk geti fylgst með straumum og stefnum sem víðast.
Í Félaginueru rúmlega 60 félagsmenn. Félagið hefur vaxið og dafnað og félögum fjölgað frá því það var stofnað. Meðlimir hafa verið virkir í listalífinu, með uppsetningum einkasýninga og þátttöku í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Einnig hefur félagið staðið fyrir reglulegum yfirlitssýningum í gegnum árin og gefið út bæklinga og bækur.
Árið 2008 opnaði Leirlistafélagið fullbúna leirvinnustofu á Korpúlfsstöðum. Hana geta félagsmenn og leirlistafólk utanfélags tekið á leigu til lengri eða skemmri tíma. Þar er einnig rými sem nýtist fyrir námskeiðshald og aðra viðburði á vegum félagsins.
Heimasíða: www.leirlist.com
Heimilisfang: Korpúlfsstöðum, 112 Reykjavík
Netfang: [email protected]
Stjórn:
Þóra Breiðfjörð, formaður
Halldóra Hafsteinsdóttir, gjaldkeri
Þórdis Baldursdóttir, ritari
Ása Tryggvadóttir, meðstjórnandi